3.5.2022

Sendinefnd frá Georgíu heimsækir Alþingi

Sendinefnd frá þjóðþingi Georgíu, ásamt sendiherra landsins, heimsótti Alþingishúsið sl. laugardag, 30. apríl, og átti fund með Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis. Í dag, þriðjudaginn 3. maí, hittu Georgíumenn svo formann og nefndarmenn í utanríkismálanefnd Alþingis að máli. Á báðum fundum var rætt um samskipti Alþingis og Georgíuþings og stöðuna í Úkraínustríðinu.

Þá bar hátt umræður um samskipti Georgíumanna við nágrannann í norðri, en tæp 14 ár eru frá innrás Rússlands í Georgíu. Lýstu georgískir gestir áhyggjum af stöðu mála, lýstu vilja til aðildar að Atlantshafsbandalaginu og óskuðu eftir stuðningi við þau áform. Fyrir sendinefndinni frá Georgíu fór Nikoloz Samkharadze, formaður utanríkismálanefndar, en með honum í för voru þingmennirnir Givi Mikanadze og David Zilpimiani, auk Nata Menabde sendiherra. Tilefni heimsóknarinnar er 30 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Georgíu.

Sendinefnd-fra-Georgiu-30042022

Sendinefnd-fra-Georgiu-asamt-utanrikismalanefnd-03052022